Hvernig virkar kosningin til stjórnlagaþings?

Kosningaaðferðin sem notuð er í stjórnlagaþingkosningunum er nýlunda hér á landi, en hún hefur verið notuð í öðrum löndum, t.d. á Írlandi, Möltu, Bretlandi og Ástralíu.  Aðferðin nefnist Single Transferable Vote (STV) og er ætlað að tryggja að atkvæði nýtist sem best og falli helst ekki niður dauð að hluta eða öllu leyti.

Eins og kunnugt er verða 25 kosnir til þingsetu, og svo bætt við allt að 6 þingmönnum sem næstir eru kjöri til að jafna hlut kynja þannig að hlutföllin verði ekki ójafnari en 60/40.

Kosningakerfið virkar sem hér segir.

  • Gefum okkur að 130.000 manns greiði atkvæði í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember nk.
  • Þá þarf frambjóðandi a.m.k. 5.000 atkvæði (1/26 af heildinni*) til að vera öruggur inn.
  • Segjum nú að ég hafi kosið Arnfríði í 1. sæti á mínum kjörseðli, Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • Ef Arnfríður fær nákvæmlega 5.000 atkvæði, þ.e. mitt og 4.999 annarra, þá nær hún akkúrat kjöri, og engin atkvæði greidd henni fóru til spillis.  Þá telst Arnfríður hafa fullnýtt mitt atkvæði og það er þar með úr sögunni.  Engu máli skiptir þá að ég setti Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • En ef Arnfríður fær hins vegar 10.000 atkvæði, þ.e. mitt og 9.999 annarra, þá hefur hún tvöfalt það fylgi sem þurfti til að ná kjöri.  Henni hefði því dugað hálft atkvæði frá hverjum stuðningsmanni sínum.  Kosningakerfið bregst við þessu með því að telja Arnfríði réttkjörna og hálfa atkvæðið mitt sem hún nýtti ekki færist yfir á Björn sem ég setti í annað sæti.
  • Loks er það tilfellið þar sem Arnfríður fær aðeins 4.000 atkvæði, sem er undir þröskuldinum, og nær ekki kjöri.  Þá nýttist atkvæði mitt ekki Arnfríði að neinu leyti heldur færist óskert niður til Björns í 2. sæti.
  • Svo lengi sem atkvæðið mitt hefur ekki verið fullnýtt, er haldið áfram niður listann, Björn tekinn fyrir með sama hætti, og svo Charlotta o.s.frv.
  • Eins og sjá má er nánast vonlaust að telja atkvæði í STV-kerfi nema með tölvum.

Af þessu öllu saman má draga nokkrar ályktanir:

Í fyrsta lagi þá hefur hver kjósandi eitt atkvæði – ekki 25 eða einhverja aðra tölu.  En þetta atkvæði getur eftir atvikum dreifst í misstórum pörtum á nokkra frambjóðendur, þ.e. akkúrat þeim pörtum sem þarf til að þeir nái kosningu.

Í öðru lagi þá skiptir röð frambjóðenda miklu máli.  Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í forgangsröð og vanda sig við það, því vel getur komið til þess að atkvæðið klárist á nokkrum efstu mönnum og nýtist þá alls ekki þeim sem neðar standa.

Í þriðja lagi þá  má segja að langur kjörseðill (15-25 nöfn) sé fyrst og fremst gagnlegur ef þú kýst marga sem ekki eru líklegir til að ná kjöri.  Í því tilviki „rúllar“ atkvæðið óskert niður listann uns fundnir eru frambjóðendur sem komast inn og nýta atkvæðið eða hluta þess.  Ef þú kýst frambjóðendur sem telja verður líklega til að komast að, þarf kjörseðillinn ekki að innihalda mörg nöfn til að tryggja að atkvæðið nýtist.  En vitaskuld er erfitt að vita fyrirfram hvernig landið liggur, þannig að allur er varinn góður.

Í fjórða lagi er engin ástæða til að reyna að kjósa „taktískt“ í STV-kerfi.  Veldu einfaldlega þá frambjóðendur sem þú treystir best, og settu þá í forgangsröð á seðilinn.  Kerfið sér til þess að atkvæðið nýtist eins vel og kostur er.

Í fimmta lagi er snjallt að setja Vilhjálm Þorsteinsson (2325) í fyrsta sætið á kjörseðlinum 😉

Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

——

*) Hlutfallið er 1/26 en ekki 1/25 af stærðfræðilegum ástæðum sem óþarfi er að fara út í; sömuleiðis getur talan 5.000 lækkað eftir því sem líður á talningarferlið en það er aukaatriði sem skiptir ekki máli hér.

Um Vilhjálmur

Frumkvöðull og forritari
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.