Veljum ráðherra á grundvelli hæfni og reynslu

Eitt helsta stefnumál mitt í kjöri til stjórnlagaþings er að breyta stjórnskipaninni þannig að ráðherrar verði valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Með því á ég við að ráðherrar verði ekki valdir úr hópi þingmanna stjórnarflokka, heldur úr víðari hópi hæfs og reynds fólks á viðkomandi fagsviðum.

Þessi áhersla þarfnast nánast ekki skýringar.  Nútíma þjóðfélag er flókið fyrirbæri.  Til þess að geta stjórnað hverju fagsviði fyrir sig í ríkisstjórn þarf töluverða þekkingu og yfirsýn um viðkomandi málaflokk.  Ekki sakar ef sá ráðherra sem málaflokki stýrir hefur reynslu og nýtur virðingar innan hans.  Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

En hvað þá um pólitíska stefnumótun í málaflokknum?  Ef ráðherrann er ekki innsti koppur í búri í stjórnmálaflokki, hvernig á pólitísk stefna að komast í framkvæmd samkvæmt vilja kjósenda?

Svarið er að pólitísk stefnumótun á í auknum mæli að fara fram á vegum löggjafarþingsins og nefnda þess.  Þingið og nefndirnar á að efla með starfsfólki og sérfræðiaðstoð, sem að hluta má flytja þangað frá ráðuneytum.   Þingið á að sjá um að móta stefnu í lykilmálaflokkum, til dæmis menntastefnu, heilbrigðis- og lýðheilsustefnu, orkustefnu, stefnu um erlendar fjárfestingar, öryggisstefnu og svo framvegis.  Þessi stefnuplögg eru samþykkt sem þingsályktanir, og verða grundvöllur lagasetningar og síðan reglugerða og stjórnvaldsathafna, sem þingið felur ríkisstjórninni að sjá um.  Stefna er endurskoðuð reglulega, t.d. einu sinni á kjörtímabili.

Svona höfum við ekki unnið á Íslandi, því miður. En því má breyta, og því þarf að breyta.

Það sem ég hef lýst hér, um faglega ráðherra og stefnumótandi þing, er markmið.  Að þessu markmiði eru ýmsar leiðir.  Ein er sú að kjósa framkvæmdavaldið (forsætisráðherra) sérstaklega, í beinni kosningu. Önnur er sú að þingið kjósi forsætisráðherrann en að hann/hún og ráðherrarnir séu ekki þingmenn.  Fleiri blandaðar leiðir eru til að þessu sama markmiði.  Ég hallast að þeirri leið að skilja algjörlega á milli framkvæmda- og löggjafarvalds með því að kjósa forsætisráðherrann beint, en er tilbúinn að skoða aðrar leiðir sem ná markmiðinu.

Ef það næst í kjölfar stjórnlagaþings 2011 þá er mikill sigur unninn fyrir framtíðina á Íslandi.

Um Vilhjálmur

Frumkvöðull og forritari
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.