Stjórnarskrá fólksins

Eftir því sem atburðum vindur fram, og því meir sem ég hugsa málið, geri ég mér æ betur grein fyrir því hvað stjórnlagaþingið er göfug og stór hugmynd.

Nú er ég vitaskuld hlutdrægur og vanhæfur og allt það sem einn þeirra sem fékk kjörbréf upp á vasann sem fulltrúi á stjórnlagaþingi, nú ógiltur.  En álit mitt á hugmyndinni er óháð þeirri staðreynd.

Það er eitthvað gott og fagurt – og hugrakkt – við það að þora að kjósa fulltrúa í almennu persónukjöri, fjölbreyttan hóp víðsvegar að úr samfélaginu, til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá.  Það rímar við skilgreiningu á lýðræði, að valdið komi frá fólkinu og sé fyrir fólkið.  Að fólk setji sér sjálft leikreglur samfélagsins sem það vill búa í.

Í kosningunni 27. nóvember sl. tókst að mörgu leyti vel til. Margir vildu bjóða sig fram og úrval frambjóðenda var mikið. Kosningabaráttan var hófstillt, kurteisleg og laus við árásir og meiðingar.  Hópurinn sem kjörinn var kom því ósár til leiks og með góðan hug til uppbyggilegs samstarfs.

Þar völdust saman: nákvæmi og skipulagði embættismaðurinn, ungi óþekkti stjórnmálafræðingurinn sem eyddi ævisparnaðinum í það brennheita áhugamál að taka þátt í stjórnlagaþingi, rótttæki geðlæknirinn, sóknarpresturinn, þjóðfélagsrýnirinn og blaðamaðurinn, skeptíski stærðfræðingurinn, fjölmiðlakonan og listfræðineminn, guðfræðingurinn, stjórnmálafræðidósentinn, hjúkrunarfræðingurinn, bændafrömuðurinn, baráttukonan fyrir mannréttindum fatlaðra, íslenskumaðurinn, neytendafrömuðurinn, verkalýðsforkólfurinn, heimilislæknirinn, ungi hugsjónalögfræðingurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, útvarpsmaðurinn, siðfræðingurinn, lífsreyndi femínistinn og leikstjórinn, hagfræðiprófessorinn, tæknikratinn (ég) og svo auðvitað þjóðargersemin Ómar sem er með öllu óflokkanlegur.

Þó ég segi sjálfur frá, þá finnst mér þetta flottur hópur til að semja stjórnarskrá einnar þjóðar.  Og sú hugmynd að svona hópur taki að sér verkefnið í umboði þjóðarinnar finnst mér sem sagt bæði góð og falleg.

Nú veit ég að ýmsum þykir þetta aftur á móti alveg snargalið dæmi frá A-Ö.  Eftir því sem ég hef skynjað virðist andstaðan mikil í hópi lögfræðinga, meiri í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga og allra mest í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga sem hafa einhvern tíma starfað á lögfræðistofu með Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

En, náðarsamlegast: það er bara ekki þannig að lögfræðingar séu best til þess fallnir að semja stjórnarskrá.  Sú ágæta stétt á vissulega að koma að verkefninu með sérfræðiráðgjöf og vera stjórnlagaþingi innan handar í starfi.  En stjórnarskráin er fólksins.  Hana á að vinna í umboði þjóðarinnar og endurspegla þverskurð hennar, skoðanir, óskir, vonir og þrár um betra samfélag. Það er ekki galin hugmynd, heldur þvert á móti birting lýðræðisins í sinni tæru og réttu mynd.

Um Vilhjálmur

Frumkvöðull og forritari
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.