Um mig

Ég er fæddur 1965, stúdent af eðlisfræðisviði MH og hef lokið fornámi í Myndlistaskólanum í Reykjavík.  Ég hef starfað sem forritari, hugbúnaðarhönnuður og tæknistjóri í eigin fyrirtæki frá 1983. Hef verið stjórnarmaður í ýmsum upplýsingatækni- og fjarskiptafyrirtækjum innanlands og utan, m.a. stjórnarmaður í CCP frá 2003 og stjórnarformaður þess frá 2006.  Frá hruni hef ég einbeitt mér að stjórnarsetu og aðkomu að ýmsum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.  Nánari upplýsingar um starfsferil minn má finna á LinkedIn.

Ég gekk í Bandalag jafnaðarmanna árið 1983, þá 17 ára gamall.  BJ gekk stuttu síðar til liðs við Alþýðuflokkinn og varð að Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna, en þar var ég í stjórn í allmörg ár.

Skoðanir mínar á stjórnskipan og stjórnarskrármálum mótuðust því snemma af hugmyndum BJ og Vilmundar Gylfasonar.

Ég tel að yfir 20 ára reynsla mín af þarfagreiningu, hönnun, forritun, gangsetningu og villuleitun stórra og flókinna hugbúnaðarkerfa sé gagnleg við vinnu að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins.  Þá hef ég unnið sem verkstjóri og tæknistjóri í stórum þróunarverkefnum og þekki því hinar ýmsu hliðar slíkrar vinnu.  Af reynslu minni í viðskiptum og fyrirtækjarekstri þekki ég m.a. samningagerð, að ná fram bestu mögulegu málamiðlun og að hvetja fólk til liðs við sameiginlega niðurstöðu.  Ég hef ætíð haft það markmið í samningum og samskiptum að finna sanngjarna lausn sem gefur báðum aðilum ávinning og gerir þeim kleift að vinna saman á ný þótt síðar verði.  Reynslan hefur ítrekað sýnt að þetta er rétt nálgun.

Ég hef um fjögurra ára skeið haldið úti bloggi um þjóðmál sem er orðið nokkuð víðlesið.  Þar er opið fyrir athugasemdir frá lesendum, og skapast oft lífleg rökræða.  Mér finnst slík rökræða gagnleg, lærdómsrík og skemmtileg, sérstaklega þegar málefnalegar umræður um ólíkar skoðanir komast á flug.

Meðal áhugamála minna (fyrir utan betri stjórnskipan!) eru portrettmálun í olíu, myndlist, laxveiðar á flugu, ljósmyndun, ferðalög, tónlist (af flestum tegundum nema kántrí) og matargerð.  Til að halda mér í formi iðka ég ashtanga jóga.

Ég er kvæntur Önnu Rögnu Magnúsardóttur, doktor í heilbrigðisvísindum. Við eigum tvö uppkomin börn.