Þjóðaratkvæðagreiðslur í nágrannalöndum

Nokkur umræða hefur skapast síðustu daga um 26. gr. íslensku stjórnarskrárinnar og um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Í framhaldi af því er forvitnilegt að skoða hvernig farið er með þjóðaratkvæði í stjórnarskrám nokkurra nágrannalanda.

Til upprifjunar, þá er 26. greinin svohljóðandi:

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Sjálfgefið er að byrja á því að skoða dönsku stjórnarskrána.  Sú íslenska er nánast þýðing á henni eins og hún var 1944, að undanteknum mannréttindakafla sem bætt var inn 1995.  (Mér telst til að 62 greinar af 80 í íslensku stjórnarskránni eigi sér beina samsvörun í þeirri dönsku.)

22. gr. dönsku stjórnarskrárinnar, sem samsvarar okkar 26. gr., er svona:

Et af folketinget vedtaget lovforslag får lovkraft, når det senest 30 dage efter den endelige vedtagelse stadfæstes af kongen. Kongen befaler lovens kundgørelse og drager omsorg for dens fuldbyrdelse.

Eins og sjá má getur danski konungurinn (núna drottningin) ekki synjað lagafrumvarpi staðfestingar.  Í staðinn er komin ný grein í dönsku stjórnarskrána, sem bætt var við í endurskoðun hennar árið 1953, þ.e. 42. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greinin sú er nokkuð löng, en aðalatriðin eru þessi:  Eftir að frumvarp hefur verið afgreitt frá þinginu, getur þriðjungur þingmanna krafist þess, innan þriggja virkra daga, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Komi slík krafa fram, getur þingið innan fimm virkra daga ákveðið að draga frumvarpið til baka.  Að öðrum kosti skal forsætisráðherra boða til atkvæðagreiðslunnar, sem fari fram eftir minnst tólf og mest átján virka daga.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni er kosið með og móti frumvarpinu.  Til að frumvarp falli brott og verði ekki að lögum, þarf meirihluti kjósenda að greiða atkvæði á móti því, en þó aldrei færri en 30% allra atkvæðisbærra manna.

Frumvörp um fjárlög, aukafjárlög, lántökur ríkisins, launamál og eftirlaun, ríkisborgararétt, framsal manna til annarra landa, óbeina og beina skatta, og um efndir alþjóðlegra skuldbindinga mega ekki fara til þjóðaratkvæðis í Danmörku, skv. 6. mgr. 42. gr. Þetta er væntanlega að vel athuguðu máli um það hvers konar mál henta til afgreiðslu með fulltrúalýðræði og hver ekki.

Þessu ákvæði hefur aðeins einu sinni verið beitt í Danmörku, þ.e. 1963 þegar fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla um jarðalög, og voru lögin þá felld (heimild hér).

Finnska stjórnarskráin gerir aðeins ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum (53. gr.), en til þeirra skal stofnað með lögum, þ.e. með samþykki meirihluta þingsins.

Sænska stjórnarskráin er svipuð, þ.e. innifelur aðeins ákvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur (4. gr. 8. kafla) sem ákveða skal nánar um í lögum.

Engin ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um lagafrumvörp er að finna í norsku stjórnarskránni.

Í stjórnarskrá Sviss eru einhver frægustu ákvæði heims um þjóðaratkvæðagreiðslur, en þar geta 50.000 kjósendur eða átta kantónur (með atkvæðagreiðslu í hverri kantónu) krafist þjóðaratkvæðis innan 100 daga um sambandslög, neyðarlög til lengri tíma en eins árs, og alþjóðasamninga.  Mér sýnist fjárhagsáætlun sambandsríkisins ekki vera í lagaformi, þannig að hana sé ekki unnt að setja í þjóðaratkvæði.  Athyglisvert er að stjórnarskráin sjálf innifelur ákvæði um einstaka skatta, m.a. tekjuskatt einstaklinga og lögaðila og virðisaukaskatt.  Unnt er að krefjast þjóðaratkvæðis um tillögur um breytingar á stjórnarskránni, og þarf 100.000 undirskriftir atkvæðisbærra manna á slíka kröfu.  Ekki er þó hægt að samþykkja breytingar sem ganga í berhögg við skuldbindingar skv. alþjóðalögum.

Í þýsku stjórnarskránni er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Samkvæmt frönsku stjórnarskránni getur fimmtungur þingmanna og tíundi hluti atkvæðisbærra manna kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp ríkisstjórnarinnar á tilteknum sviðum.

Umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur í fleiri löndum má sjá hér.

Eins og sjá má er sinn siðurinn í landi hverju.  Við endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar, sem er bráðnauðsynleg og löngu tímabær, þarf að kveða á um þjóðaratkvæðagreiðslur með skýrum og skynsamlegum hætti.  Að mínu mati má skoða frumkvæði jafnt þingmanna sem almennra kjósenda að slíkum atkvæðagreiðslum. Ég tel þó að undanskilja eigi tiltekna málaflokka, að danskri fyrirmynd – enda hafa fulltrúalýðræði og þjóðaratkvæði hvort sína styrkleika og veikleika. Farsælast er að nýta það besta úr hvoru tveggja.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Stjórnarskrá fólksins

Eftir því sem atburðum vindur fram, og því meir sem ég hugsa málið, geri ég mér æ betur grein fyrir því hvað stjórnlagaþingið er göfug og stór hugmynd.

Nú er ég vitaskuld hlutdrægur og vanhæfur og allt það sem einn þeirra sem fékk kjörbréf upp á vasann sem fulltrúi á stjórnlagaþingi, nú ógiltur.  En álit mitt á hugmyndinni er óháð þeirri staðreynd.

Það er eitthvað gott og fagurt – og hugrakkt – við það að þora að kjósa fulltrúa í almennu persónukjöri, fjölbreyttan hóp víðsvegar að úr samfélaginu, til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá.  Það rímar við skilgreiningu á lýðræði, að valdið komi frá fólkinu og sé fyrir fólkið.  Að fólk setji sér sjálft leikreglur samfélagsins sem það vill búa í.

Í kosningunni 27. nóvember sl. tókst að mörgu leyti vel til. Margir vildu bjóða sig fram og úrval frambjóðenda var mikið. Kosningabaráttan var hófstillt, kurteisleg og laus við árásir og meiðingar.  Hópurinn sem kjörinn var kom því ósár til leiks og með góðan hug til uppbyggilegs samstarfs.

Þar völdust saman: nákvæmi og skipulagði embættismaðurinn, ungi óþekkti stjórnmálafræðingurinn sem eyddi ævisparnaðinum í það brennheita áhugamál að taka þátt í stjórnlagaþingi, rótttæki geðlæknirinn, sóknarpresturinn, þjóðfélagsrýnirinn og blaðamaðurinn, skeptíski stærðfræðingurinn, fjölmiðlakonan og listfræðineminn, guðfræðingurinn, stjórnmálafræðidósentinn, hjúkrunarfræðingurinn, bændafrömuðurinn, baráttukonan fyrir mannréttindum fatlaðra, íslenskumaðurinn, neytendafrömuðurinn, verkalýðsforkólfurinn, heimilislæknirinn, ungi hugsjónalögfræðingurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, útvarpsmaðurinn, siðfræðingurinn, lífsreyndi femínistinn og leikstjórinn, hagfræðiprófessorinn, tæknikratinn (ég) og svo auðvitað þjóðargersemin Ómar sem er með öllu óflokkanlegur.

Þó ég segi sjálfur frá, þá finnst mér þetta flottur hópur til að semja stjórnarskrá einnar þjóðar.  Og sú hugmynd að svona hópur taki að sér verkefnið í umboði þjóðarinnar finnst mér sem sagt bæði góð og falleg.

Nú veit ég að ýmsum þykir þetta aftur á móti alveg snargalið dæmi frá A-Ö.  Eftir því sem ég hef skynjað virðist andstaðan mikil í hópi lögfræðinga, meiri í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga og allra mest í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga sem hafa einhvern tíma starfað á lögfræðistofu með Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

En, náðarsamlegast: það er bara ekki þannig að lögfræðingar séu best til þess fallnir að semja stjórnarskrá.  Sú ágæta stétt á vissulega að koma að verkefninu með sérfræðiráðgjöf og vera stjórnlagaþingi innan handar í starfi.  En stjórnarskráin er fólksins.  Hana á að vinna í umboði þjóðarinnar og endurspegla þverskurð hennar, skoðanir, óskir, vonir og þrár um betra samfélag. Það er ekki galin hugmynd, heldur þvert á móti birting lýðræðisins í sinni tæru og réttu mynd.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Auðlindir, náttúran og stjórnarskráin

Meðal stefnumála minna fyrir stjórnlagaþing er að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar – sem ekki eru þegar í einkaeigu – verði staðfestur í stjórnarskrá, og að ég sé fylgjandi hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Hvað á ég við með þessu?

Umræða um eignarrétt á auðlindum og umgengni um náttúruna er ekki ný af nálinni í tengslum við stjórnarskrána.  Auðlindanefnd sem starfaði 1998-2000 undir forystu Jóhannesar Nordal lagði til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar, svohljóðandi:

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign1) eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

Auðlindanefndin heldur svo áfram:

Lagt er til að um meðferð þessara náttúruauðlinda gildi eftirfarandi meginreglur:

 • Stjórnvöld fari með forsjá auðlindanna sem ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar.
 • Veita megi einstaklingum og lögaðilum heimild til að nýta þessar auðlindir, enda sé afnotaréttur ætíð tímabundinn eða uppsegjanlegur.
 • Lagt sé á afnotagjald til að standa undir kostnaði ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlindanna.
 • Þjóðin fái sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlindanna skapar.

Fyrir kosningarnar í apríl 2009 var lagt fram á Alþingi frumvarp að breytingum á stjórnarskrá, sem kafnaði því miður í málþófi.  (Þar var m.a. kveðið á um að tillaga stjórnlagaþings að breyttri stjórnarskrá gæti farið beint í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, án afskipta Alþingis.) Í frumvarpinu var eftirfarandi tillaga að orðalagi stjórnarskrárgreinar um náttúruauðlindir, sem byggð er á nálgun auðlindanefndar:

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.

Undir flest ofangreint get ég tekið, sérstaklega síðari tillöguna, sem mér finnst skýrari og skarpari en hin fyrri.  Þó tel ég að til greina komi að sérstakur Auðlindasjóður fari með forsjá auðlindanna f.h. þjóðarinnar og stjórnvalda og innheimti afnotagjöld og hlutdeild í auðlindarentu skv. sérstökum lögum þar um.

Varðandi náttúruvernd og umhverfismál má einnig líta til fyrirmynda í stjórnarskrám annarra landa. 20. gr. finnsku stjórnarskrárinnar segir til dæmis: „Náttúran og líffræðilegur fjölbreytileiki, umhverfið og þjóðararfurinn eru á allra ábyrgð.  Stjórnvöld skulu leitast við að tryggja öllum rétt til heilbrigðs umhverfis og að allir eigi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta lífsskilyrði þeirra.“

Í svissnesku stjórnarskránni er ítarlegur kafli (nr. 4) um umhverfi og skipulagsmál, þar sem er m.a. fjallað um sjálfbæra þróun, verndun umhverfis, skipulagsvald, vatn, skóga, verndun náttúruminja og menningararfs, veiði og dýravernd.  Margt af því gæti verið til eftirbreytni.

Þessi málaflokkur er með þeim mikilvægari sem stjórnlagaþing mun ræða.  Ég hlakka til að takast á við verkefnið og vona að ég fái stuðning þinn til þess.

—–

1) Auðlindanefndin skilgreinir hugtakið „þjóðareignarréttur“ í kafla 2.5.2 í skýrslu sinni.
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Úr fundargerðum stjórnarskrárnefndar

Á árunum 2005-2007 starfaði níu manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar undir forystu Jóns Kristjánssonar.  Sú nefnd skilaði ágætri áfangaskýrslu í febrúar 2007, en málið sofnaði þar með.  Það er athyglisvert að nefndarmenn, sem voru flestir forystumenn stjórnmálaflokka, voru á einu máli um þörfina á endurskoðun stjórnarskrár – sem ætti að vera umhugsunarefni þeim sem tala nú um að engin þörf sé á slíku.

Í fundargerðum nefndarinnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Rætt var um uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár. Voru ýmsir nefndarmenn því fylgjandi að ef uppröðun kafla yrði breytt þá yrði hún eitthvað á þann veg að í fyrsta kafla yrðu ákvæði um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins, í öðrum kafla um grundvallarréttindi, í þriðja kafla um Alþingi, þá um forseta, framkvæmdarvald, dómstóla og loks um ýmis önnur atriði eins og stjórnarskrárbreytingar.

Varðandi upphafskafla um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins kom fram það sjónarmið að þar þyrfti að vera ákvæði um að allt vald væri upprunnið hjá þjóðinni. Einnig að borgararnir ættu allan þann rétt sem ekki væri sérstaklega af þeim tekinn. Mikilvægt væri að stjórnarskráin geymdi skýr ákvæði sem takmörkuðu vald. Forðast ætti almennar stefnuyfirlýsingar með óljósa lagalega merkingu jafnvel þótt menn gætu verið þeim sammála. Ákvæði stjórnarskrár þyrftu að vera skýr þannig að vald til túlkunar væri ekki í of miklum mæli framselt dómstólum. Slíkt gæti raskað jafnvægi milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins. Loks þyrfti að taka á þeim vanda að orðalag stjórnarskrárinnar væri oft fjarri veruleikanum. Úrelt ákvæði mætti fella burt.

Fram kom það sjónarmið að styrkja þyrfti aðhaldshlutverk Alþingis með stjórnsýslunni.

Eins var þess getið að ástæða væri til að hafa ákvæði um umboðsmann Alþingis í stjórnarskránni.

Þá var einnig nefnt að æskilegt gæti verið að hægt væri að afla fyrirframúrskurðar Hæstaréttar um stjórnskipulegt gildi laga. Um þetta væri oft deilt en engin greið leið að fá úr því skorið.

Þessa punkta (úr stóru safni fundargerða) get ég alla tekið undir.  En helsti lærdómurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar er sá, að það þýðir ekki að fela stjórnmálaflokkunum að endurskoða stjórnarskrána.  Þeim er málið of skylt, og starfið koðnar niður þegar farið er að ræða áþreifanlegar breytingar.  Þess vegna er stjórnlagaþingið einstakt tækifæri – sem okkur ber að nýta vel.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Sólon – stefnumót með frambjóðendum

Í dag laugardag 20. nóvember býð ég ásamt sjö meðframbjóðendum til stefnumóts á Kaffi Sólon við Bankastræti í Reykjavík. Við verðum á staðnum frá kl. 13-18 til spjalls um kosninguna, stjórnarskrána og framtíðina. Það verður heitt á könnunni. Allir velkomnir og við vonumst til að sjá sem flesta. Það verða því miður ekki mörg tækifæri fyrir kosninguna til stjórnlagaþings að hitta frambjóðendur – um að gera að nýta þau vel!

Stefnumót við frambjóðendur á Sólon

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Selfoss – frambjóðendur á ferð

Föstudaginn 19. nóvember verð ég ásamt meðframbjóðendum mínum Salvöru Nordal, Helgu Sigurjónsdóttur og Þorkatli Helgasyni í verslunarmiðstöðunni Kjarnanum á Selfossi frá 16-19.

Hlakka til að hitta Selfyssinga og nærsveitafólk og eiga samtal um stjórnarskrána og framtíðina.

Selfoss - frambjóðendur á ferð 19. nóvember

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Akureyri – frambjóðendur á ferð

Fimmtudaginn 18. nóvember verð ég ásamt meðframbjóðendum mínum Salvöru Nordal og Þorkatli Helgasyni á Glerártorgi á Akureyri frá 15-18.

Hlakka til að hitta Akureyringa og nærsveitafólk og eiga samtal um stjórnarskrána og framtíðina.

Fundur á Akureyri fimmtudag 18. nóvember

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Veljum ráðherra á grundvelli hæfni og reynslu

Eitt helsta stefnumál mitt í kjöri til stjórnlagaþings er að breyta stjórnskipaninni þannig að ráðherrar verði valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Með því á ég við að ráðherrar verði ekki valdir úr hópi þingmanna stjórnarflokka, heldur úr víðari hópi hæfs og reynds fólks á viðkomandi fagsviðum.

Þessi áhersla þarfnast nánast ekki skýringar.  Nútíma þjóðfélag er flókið fyrirbæri.  Til þess að geta stjórnað hverju fagsviði fyrir sig í ríkisstjórn þarf töluverða þekkingu og yfirsýn um viðkomandi málaflokk.  Ekki sakar ef sá ráðherra sem málaflokki stýrir hefur reynslu og nýtur virðingar innan hans.  Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

En hvað þá um pólitíska stefnumótun í málaflokknum?  Ef ráðherrann er ekki innsti koppur í búri í stjórnmálaflokki, hvernig á pólitísk stefna að komast í framkvæmd samkvæmt vilja kjósenda?

Svarið er að pólitísk stefnumótun á í auknum mæli að fara fram á vegum löggjafarþingsins og nefnda þess.  Þingið og nefndirnar á að efla með starfsfólki og sérfræðiaðstoð, sem að hluta má flytja þangað frá ráðuneytum.   Þingið á að sjá um að móta stefnu í lykilmálaflokkum, til dæmis menntastefnu, heilbrigðis- og lýðheilsustefnu, orkustefnu, stefnu um erlendar fjárfestingar, öryggisstefnu og svo framvegis.  Þessi stefnuplögg eru samþykkt sem þingsályktanir, og verða grundvöllur lagasetningar og síðan reglugerða og stjórnvaldsathafna, sem þingið felur ríkisstjórninni að sjá um.  Stefna er endurskoðuð reglulega, t.d. einu sinni á kjörtímabili.

Svona höfum við ekki unnið á Íslandi, því miður. En því má breyta, og því þarf að breyta.

Það sem ég hef lýst hér, um faglega ráðherra og stefnumótandi þing, er markmið.  Að þessu markmiði eru ýmsar leiðir.  Ein er sú að kjósa framkvæmdavaldið (forsætisráðherra) sérstaklega, í beinni kosningu. Önnur er sú að þingið kjósi forsætisráðherrann en að hann/hún og ráðherrarnir séu ekki þingmenn.  Fleiri blandaðar leiðir eru til að þessu sama markmiði.  Ég hallast að þeirri leið að skilja algjörlega á milli framkvæmda- og löggjafarvalds með því að kjósa forsætisráðherrann beint, en er tilbúinn að skoða aðrar leiðir sem ná markmiðinu.

Ef það næst í kjölfar stjórnlagaþings 2011 þá er mikill sigur unninn fyrir framtíðina á Íslandi.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hvernig virkar kosningin til stjórnlagaþings?

Kosningaaðferðin sem notuð er í stjórnlagaþingkosningunum er nýlunda hér á landi, en hún hefur verið notuð í öðrum löndum, t.d. á Írlandi, Möltu, Bretlandi og Ástralíu.  Aðferðin nefnist Single Transferable Vote (STV) og er ætlað að tryggja að atkvæði nýtist sem best og falli helst ekki niður dauð að hluta eða öllu leyti.

Eins og kunnugt er verða 25 kosnir til þingsetu, og svo bætt við allt að 6 þingmönnum sem næstir eru kjöri til að jafna hlut kynja þannig að hlutföllin verði ekki ójafnari en 60/40.

Kosningakerfið virkar sem hér segir.

 • Gefum okkur að 130.000 manns greiði atkvæði í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember nk.
 • Þá þarf frambjóðandi a.m.k. 5.000 atkvæði (1/26 af heildinni*) til að vera öruggur inn.
 • Segjum nú að ég hafi kosið Arnfríði í 1. sæti á mínum kjörseðli, Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
 • Ef Arnfríður fær nákvæmlega 5.000 atkvæði, þ.e. mitt og 4.999 annarra, þá nær hún akkúrat kjöri, og engin atkvæði greidd henni fóru til spillis.  Þá telst Arnfríður hafa fullnýtt mitt atkvæði og það er þar með úr sögunni.  Engu máli skiptir þá að ég setti Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
 • En ef Arnfríður fær hins vegar 10.000 atkvæði, þ.e. mitt og 9.999 annarra, þá hefur hún tvöfalt það fylgi sem þurfti til að ná kjöri.  Henni hefði því dugað hálft atkvæði frá hverjum stuðningsmanni sínum.  Kosningakerfið bregst við þessu með því að telja Arnfríði réttkjörna og hálfa atkvæðið mitt sem hún nýtti ekki færist yfir á Björn sem ég setti í annað sæti.
 • Loks er það tilfellið þar sem Arnfríður fær aðeins 4.000 atkvæði, sem er undir þröskuldinum, og nær ekki kjöri.  Þá nýttist atkvæði mitt ekki Arnfríði að neinu leyti heldur færist óskert niður til Björns í 2. sæti.
 • Svo lengi sem atkvæðið mitt hefur ekki verið fullnýtt, er haldið áfram niður listann, Björn tekinn fyrir með sama hætti, og svo Charlotta o.s.frv.
 • Eins og sjá má er nánast vonlaust að telja atkvæði í STV-kerfi nema með tölvum.

Af þessu öllu saman má draga nokkrar ályktanir:

Í fyrsta lagi þá hefur hver kjósandi eitt atkvæði – ekki 25 eða einhverja aðra tölu.  En þetta atkvæði getur eftir atvikum dreifst í misstórum pörtum á nokkra frambjóðendur, þ.e. akkúrat þeim pörtum sem þarf til að þeir nái kosningu.

Í öðru lagi þá skiptir röð frambjóðenda miklu máli.  Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í forgangsröð og vanda sig við það, því vel getur komið til þess að atkvæðið klárist á nokkrum efstu mönnum og nýtist þá alls ekki þeim sem neðar standa.

Í þriðja lagi þá  má segja að langur kjörseðill (15-25 nöfn) sé fyrst og fremst gagnlegur ef þú kýst marga sem ekki eru líklegir til að ná kjöri.  Í því tilviki „rúllar“ atkvæðið óskert niður listann uns fundnir eru frambjóðendur sem komast inn og nýta atkvæðið eða hluta þess.  Ef þú kýst frambjóðendur sem telja verður líklega til að komast að, þarf kjörseðillinn ekki að innihalda mörg nöfn til að tryggja að atkvæðið nýtist.  En vitaskuld er erfitt að vita fyrirfram hvernig landið liggur, þannig að allur er varinn góður.

Í fjórða lagi er engin ástæða til að reyna að kjósa „taktískt“ í STV-kerfi.  Veldu einfaldlega þá frambjóðendur sem þú treystir best, og settu þá í forgangsröð á seðilinn.  Kerfið sér til þess að atkvæðið nýtist eins vel og kostur er.

Í fimmta lagi er snjallt að setja Vilhjálm Þorsteinsson (2325) í fyrsta sætið á kjörseðlinum 😉

Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

——

*) Hlutfallið er 1/26 en ekki 1/25 af stærðfræðilegum ástæðum sem óþarfi er að fara út í; sömuleiðis getur talan 5.000 lækkað eftir því sem líður á talningarferlið en það er aukaatriði sem skiptir ekki máli hér.
Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Hvernig virkar kosningin til stjórnlagaþings?

Sænska stjórnarskráin

Í aðdraganda stjórnlagaþings er gagnlegt að kynna sér stjórnarskrár annarra landa.  Sumar þeirra eru  nýjar eða nýlegar – eins og stjórnarskrá Finnlands og Sviss – en aðrar eldri, eins og gengur.  Íslenska stjórnarskráin er í hópi þeirra eldri, enda að uppistöðu frá 1874, og ber aldurinn ekki að öllu leyti vel.

Hér lít ég stuttlega á sænsku stjórnarskrána en mun kíkja á aðrar athyglisverðar stjórnarskrár í síðari færslum.

Svíar eru reyndar ekki með eina stjórnarskrá heldur fern grunnlög.  Fyrstu grunnlögin eru hin hefðbundnu stjórnskipunarlög.  Önnur grunnlögin fjalla um ríkiserfðir.  Þau þriðju fjalla um prentfrelsi og þau fjórðu um tjáningarfrelsi.  Já, þú last rétt: Svíar tryggja prentfrelsi og tjáningarfrelsi í ítarlegum bálkum í stjórnarskránni sjálfri.

En fyrstu tvær greinar stjórnskipunarlaganna (Regeringsformen) eru nokkurs konar inngangur sænsku stjórnarskrárinnar og gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur.  Hér eru þær í lauslegri þýðingu minni:

1. gr. Allt opinbert vald í Svíþjóð kemur frá þjóðinni. Sænskt lýðræði byggir á frjálsri skoðanamyndun og á almennum og jöfnum kosningarétti.  Það er raungert með fulltrúalýðræði og þingræðisfyrirkomulagi, og með sjálfræði sveitarstjórna. Opinberu valdi er beitt með lögum.

2. gr. Opinberu valdi skal beita af virðingu fyrir jöfnu manngildi allra og frelsi og sjálfsvirðingu einstaklingsins. Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi.

Hið opinbera skal efla sjálfbæra þróun sem leiðir til góðs umhverfis fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Hið opinbera skal halda fram hugsjónum lýðræðis sem leiðarljósi í öllum geirum samfélagsins og vernda einka- og fjölskyldulíf einstaklinga.

Hið opinbera skal vinna að því að allir geti tekið þátt og notið jafnréttis í samfélaginu.  Hið opinbera skal vinna gegn mismunun fólks á grundvelli kyns, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynþáttar, tungumáls, trúarafstöðu, fötlunar, kynhneigðar, aldurs eða annarra kringumstæðna einstaklingsins.

Minnihlutahópum á grundvelli kynþáttar, tungumáls eða trúarafstöðu skulu tryggð tækifæri til að varðveita og þróa eigið menningar- og félagslíf.

Eitthvað af þessu gæti nýst í inngang nýrrar stjórnarskrár Íslendinga. Hvað finnst þér?

Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Sænska stjórnarskráin