Veljum ráðherra á grundvelli hæfni og reynslu

Eitt helsta stefnumál mitt í kjöri til stjórnlagaþings er að breyta stjórnskipaninni þannig að ráðherrar verði valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Með því á ég við að ráðherrar verði ekki valdir úr hópi þingmanna stjórnarflokka, heldur úr víðari hópi hæfs og reynds fólks á viðkomandi fagsviðum.

Þessi áhersla þarfnast nánast ekki skýringar.  Nútíma þjóðfélag er flókið fyrirbæri.  Til þess að geta stjórnað hverju fagsviði fyrir sig í ríkisstjórn þarf töluverða þekkingu og yfirsýn um viðkomandi málaflokk.  Ekki sakar ef sá ráðherra sem málaflokki stýrir hefur reynslu og nýtur virðingar innan hans.  Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

En hvað þá um pólitíska stefnumótun í málaflokknum?  Ef ráðherrann er ekki innsti koppur í búri í stjórnmálaflokki, hvernig á pólitísk stefna að komast í framkvæmd samkvæmt vilja kjósenda?

Svarið er að pólitísk stefnumótun á í auknum mæli að fara fram á vegum löggjafarþingsins og nefnda þess.  Þingið og nefndirnar á að efla með starfsfólki og sérfræðiaðstoð, sem að hluta má flytja þangað frá ráðuneytum.   Þingið á að sjá um að móta stefnu í lykilmálaflokkum, til dæmis menntastefnu, heilbrigðis- og lýðheilsustefnu, orkustefnu, stefnu um erlendar fjárfestingar, öryggisstefnu og svo framvegis.  Þessi stefnuplögg eru samþykkt sem þingsályktanir, og verða grundvöllur lagasetningar og síðan reglugerða og stjórnvaldsathafna, sem þingið felur ríkisstjórninni að sjá um.  Stefna er endurskoðuð reglulega, t.d. einu sinni á kjörtímabili.

Svona höfum við ekki unnið á Íslandi, því miður. En því má breyta, og því þarf að breyta.

Það sem ég hef lýst hér, um faglega ráðherra og stefnumótandi þing, er markmið.  Að þessu markmiði eru ýmsar leiðir.  Ein er sú að kjósa framkvæmdavaldið (forsætisráðherra) sérstaklega, í beinni kosningu. Önnur er sú að þingið kjósi forsætisráðherrann en að hann/hún og ráðherrarnir séu ekki þingmenn.  Fleiri blandaðar leiðir eru til að þessu sama markmiði.  Ég hallast að þeirri leið að skilja algjörlega á milli framkvæmda- og löggjafarvalds með því að kjósa forsætisráðherrann beint, en er tilbúinn að skoða aðrar leiðir sem ná markmiðinu.

Ef það næst í kjölfar stjórnlagaþings 2011 þá er mikill sigur unninn fyrir framtíðina á Íslandi.

Birt í Uncategorized

Hvernig virkar kosningin til stjórnlagaþings?

Kosningaaðferðin sem notuð er í stjórnlagaþingkosningunum er nýlunda hér á landi, en hún hefur verið notuð í öðrum löndum, t.d. á Írlandi, Möltu, Bretlandi og Ástralíu.  Aðferðin nefnist Single Transferable Vote (STV) og er ætlað að tryggja að atkvæði nýtist sem best og falli helst ekki niður dauð að hluta eða öllu leyti.

Eins og kunnugt er verða 25 kosnir til þingsetu, og svo bætt við allt að 6 þingmönnum sem næstir eru kjöri til að jafna hlut kynja þannig að hlutföllin verði ekki ójafnari en 60/40.

Kosningakerfið virkar sem hér segir.

  • Gefum okkur að 130.000 manns greiði atkvæði í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember nk.
  • Þá þarf frambjóðandi a.m.k. 5.000 atkvæði (1/26 af heildinni*) til að vera öruggur inn.
  • Segjum nú að ég hafi kosið Arnfríði í 1. sæti á mínum kjörseðli, Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • Ef Arnfríður fær nákvæmlega 5.000 atkvæði, þ.e. mitt og 4.999 annarra, þá nær hún akkúrat kjöri, og engin atkvæði greidd henni fóru til spillis.  Þá telst Arnfríður hafa fullnýtt mitt atkvæði og það er þar með úr sögunni.  Engu máli skiptir þá að ég setti Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • En ef Arnfríður fær hins vegar 10.000 atkvæði, þ.e. mitt og 9.999 annarra, þá hefur hún tvöfalt það fylgi sem þurfti til að ná kjöri.  Henni hefði því dugað hálft atkvæði frá hverjum stuðningsmanni sínum.  Kosningakerfið bregst við þessu með því að telja Arnfríði réttkjörna og hálfa atkvæðið mitt sem hún nýtti ekki færist yfir á Björn sem ég setti í annað sæti.
  • Loks er það tilfellið þar sem Arnfríður fær aðeins 4.000 atkvæði, sem er undir þröskuldinum, og nær ekki kjöri.  Þá nýttist atkvæði mitt ekki Arnfríði að neinu leyti heldur færist óskert niður til Björns í 2. sæti.
  • Svo lengi sem atkvæðið mitt hefur ekki verið fullnýtt, er haldið áfram niður listann, Björn tekinn fyrir með sama hætti, og svo Charlotta o.s.frv.
  • Eins og sjá má er nánast vonlaust að telja atkvæði í STV-kerfi nema með tölvum.

Af þessu öllu saman má draga nokkrar ályktanir:

Í fyrsta lagi þá hefur hver kjósandi eitt atkvæði – ekki 25 eða einhverja aðra tölu.  En þetta atkvæði getur eftir atvikum dreifst í misstórum pörtum á nokkra frambjóðendur, þ.e. akkúrat þeim pörtum sem þarf til að þeir nái kosningu.

Í öðru lagi þá skiptir röð frambjóðenda miklu máli.  Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í forgangsröð og vanda sig við það, því vel getur komið til þess að atkvæðið klárist á nokkrum efstu mönnum og nýtist þá alls ekki þeim sem neðar standa.

Í þriðja lagi þá  má segja að langur kjörseðill (15-25 nöfn) sé fyrst og fremst gagnlegur ef þú kýst marga sem ekki eru líklegir til að ná kjöri.  Í því tilviki „rúllar“ atkvæðið óskert niður listann uns fundnir eru frambjóðendur sem komast inn og nýta atkvæðið eða hluta þess.  Ef þú kýst frambjóðendur sem telja verður líklega til að komast að, þarf kjörseðillinn ekki að innihalda mörg nöfn til að tryggja að atkvæðið nýtist.  En vitaskuld er erfitt að vita fyrirfram hvernig landið liggur, þannig að allur er varinn góður.

Í fjórða lagi er engin ástæða til að reyna að kjósa „taktískt“ í STV-kerfi.  Veldu einfaldlega þá frambjóðendur sem þú treystir best, og settu þá í forgangsröð á seðilinn.  Kerfið sér til þess að atkvæðið nýtist eins vel og kostur er.

Í fimmta lagi er snjallt að setja Vilhjálm Þorsteinsson (2325) í fyrsta sætið á kjörseðlinum 😉

Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

——

*) Hlutfallið er 1/26 en ekki 1/25 af stærðfræðilegum ástæðum sem óþarfi er að fara út í; sömuleiðis getur talan 5.000 lækkað eftir því sem líður á talningarferlið en það er aukaatriði sem skiptir ekki máli hér.
Birt í Uncategorized

Sænska stjórnarskráin

Í aðdraganda stjórnlagaþings er gagnlegt að kynna sér stjórnarskrár annarra landa.  Sumar þeirra eru  nýjar eða nýlegar – eins og stjórnarskrá Finnlands og Sviss – en aðrar eldri, eins og gengur.  Íslenska stjórnarskráin er í hópi þeirra eldri, enda að uppistöðu frá 1874, og ber aldurinn ekki að öllu leyti vel.

Hér lít ég stuttlega á sænsku stjórnarskrána en mun kíkja á aðrar athyglisverðar stjórnarskrár í síðari færslum.

Svíar eru reyndar ekki með eina stjórnarskrá heldur fern grunnlög.  Fyrstu grunnlögin eru hin hefðbundnu stjórnskipunarlög.  Önnur grunnlögin fjalla um ríkiserfðir.  Þau þriðju fjalla um prentfrelsi og þau fjórðu um tjáningarfrelsi.  Já, þú last rétt: Svíar tryggja prentfrelsi og tjáningarfrelsi í ítarlegum bálkum í stjórnarskránni sjálfri.

En fyrstu tvær greinar stjórnskipunarlaganna (Regeringsformen) eru nokkurs konar inngangur sænsku stjórnarskrárinnar og gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur.  Hér eru þær í lauslegri þýðingu minni:

1. gr. Allt opinbert vald í Svíþjóð kemur frá þjóðinni. Sænskt lýðræði byggir á frjálsri skoðanamyndun og á almennum og jöfnum kosningarétti.  Það er raungert með fulltrúalýðræði og þingræðisfyrirkomulagi, og með sjálfræði sveitarstjórna. Opinberu valdi er beitt með lögum.

2. gr. Opinberu valdi skal beita af virðingu fyrir jöfnu manngildi allra og frelsi og sjálfsvirðingu einstaklingsins. Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi.

Hið opinbera skal efla sjálfbæra þróun sem leiðir til góðs umhverfis fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Hið opinbera skal halda fram hugsjónum lýðræðis sem leiðarljósi í öllum geirum samfélagsins og vernda einka- og fjölskyldulíf einstaklinga.

Hið opinbera skal vinna að því að allir geti tekið þátt og notið jafnréttis í samfélaginu.  Hið opinbera skal vinna gegn mismunun fólks á grundvelli kyns, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynþáttar, tungumáls, trúarafstöðu, fötlunar, kynhneigðar, aldurs eða annarra kringumstæðna einstaklingsins.

Minnihlutahópum á grundvelli kynþáttar, tungumáls eða trúarafstöðu skulu tryggð tækifæri til að varðveita og þróa eigið menningar- og félagslíf.

Eitthvað af þessu gæti nýst í inngang nýrrar stjórnarskrár Íslendinga. Hvað finnst þér?

Birt í Uncategorized