Stefnumál

Helstu markmið sem ég vil gjarnan ná með nýrri stjórnarskrá eru:

  • Ráðherrar verði valdir á grundvelli hæfni og reynslu. Ráðherrar eru æðstu menn framkvæmdavaldsins og bera ábyrgð á stórum, flóknum og sérhæfðum málaflokkum.  Það gengur ekki lengur að þeir séu valdir úr þröngum hópi þingmanna eftir alls kyns ómálefnalegum sjónarmiðum innan stjórnarflokka.  Við höfum séð glögglega hvert það leiðir þegar fólk sem er ágætt út af fyrir sig er sett í þá stöðu að stjórna málaflokkum sem það hefur ekki staðgóða þekkingu á og reynslu af.  Leiðir að þessu markmiði eru nokkrar mögulegar.  Best hugnast mér sú leið að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, en hann/hún tilnefni ráðuneyti sitt.  Vitaskuld þarf ríkisstjórnin ætíð að afla meirihlutastuðnings þingsins fyrir lagafrumvörpum sem hún vill fá í gegn.  Með þessu yrði framkvæmdavald og löggjafarvald nánast fullkomlega aðskilið, sem að mínu mati styrkir hvora tveggju valdþættina.
  • Öflugri stefnumótun og aðhald af hálfu þingsins. Með því að greina betur milli ríkisstjórnar og þings verður þingið sjálfstæðara.  Það á að taka í auknum mæli að sér stefnumótun og aðhald.  Dæmi um þetta eru atvinnustefna, menntastefna, heilbrigðisstefna, orkustefna – slíka stefnumótun mætti og ætti að vinna á vegum þingsins og nefnda þess, gera að þingsályktunum og fela ríkisstjórninni til framkvæmdar.  Að sama skapi á þingið að taka að sér eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldinu, spyrja gagnrýninna spurninga og sjá til þess að almannahagsmuna sé gætt í bráð og lengd.  Framsýn stefnumótun og virkt aðhald hafa lengi verið í miklu skötulíki í íslenska stjórnkerfinu; nú er mál að linni og við gerum þetta almennilega.
  • Faglegri, vandaðri og opnari stjórnsýsla. Stjórnsýslan hefur verið of veik og liðið fyrir pólitískar ráðningar og inngrip, og skort á aðhaldi og gagnsæi.  Stjórnsýslulög og lög um Umboðsmann Alþingis voru stór framfaraskref, en megindrættir þeirra þurfa að færast úr almennum lögum inn í stjórnarskrána til að tryggja réttindi og vernd borgaranna.  Sérstaklega þarf að styrkja stöðu Umboðsmanns og jafnvel að teygja embættið í áttina að stjórnsýsludómstól að franskri fyrirmynd.
  • Virkara lýðræði, veikara flokksræði. Lýðræði á Íslandi hefur verið í of miklum mæli skammtað í gegn um stjórnmálaflokka.  Flokkarnir hafa verið of sterkir og orðið að sjálfmiðjuðum stofnunum. Því er nauðsynlegt að veikja þá nokkuð, innan skynsamlegra marka (því flokkar eru líka gagnlegir).   Það má gera með ráðstöfunum á borð við aukna möguleika á persónukjöri til þings, jafnvel þvert á flokka; reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál (þó ekki öll, t.d. ekki fjárlög); og helst að gera landið að einu kjördæmi.
  • Skýrari, markvissari uppbygging og texti. Stjórnarskráin frá 1944 er að uppistöðu frá 1874 og ber aldurinn ekki vel.  Hún er ómarkvisst uppbyggð, óskýr í ýmsum meginatriðum og lýsir ekki raunveruleikanum eins og hann er.  Það er brýnt að ný stjórnarskrá sé skýrt og lifandi plagg sem fólk getur skilið, tengt sig við og byggt sinn rétt á.  Stjórnarskráin á að hefjast á formála þar sem íslenska þjóðin sammælist um að setja sér sáttmála um stjórn sinna sameiginlegu málefna.  Þá skal tíunda grunngildi sem ætíð á að hafa í heiðri.  Af þeim leiða mannréttindi.  Loks á að koma lýsing á stjórnkerfinu sem tryggir að það verði sem við viljum, en ekki það sem við viljum ekki.  Að hafa svona grunnplagg, skýrt og fallega orðað, yrði þjóðinni mjög dýrmætt; miklu dýrmætara en núverandi stjórnarskrá hefur nokkru sinni orðið.

Auk þessara meginmarkmiða er ég fylgjandi því að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar – sem ekki eru þegar í einkaeigu – verði staðfestur í stjórnarskrá.

Ég er líka fylgjandi hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og tel að ný stjórnarskrá eigi að vera í samræmi við þá hugmyndafræði þar sem við á.

Þá er ég hlynntur því að tryggja jafnræði trúfélaga og lífsskoðana í landinu.

Að öllu ofangreindu vil ég vinna og býð því fram krafta mína á stjórnlagaþingi.  Ég vonast til að fá stuðning þinn til þessa mikilvæga verkefnis.